Jón Magnús Arnarsson er fæddur árið 1982. Hann lauk Diplómanámi í leiklist í Kaupmannahöfn árið 2011 og hefur leikið í kvikmyndum, sjónvarpi, útvarpi, leikhúsi og auglýsingum. Auk þess hefur hann skrifað ljóð, texta og rímur (rapp) frá unga aldri og komið að textasmíð óteljandi músíkverkefna og hljómplatna.
Tvískinnungur er hans fyrsta sviðsverk.

Tvískinnungur 

Black Widow og Iron Man hittast á svölunum í grímupartíi; eru þau andstæðingar eða elskendur, fjandmenn eða vinir – eru þau ókunnug eða hafa þau þekkst í þúsund ár? Leikarapar tekst á í snörpum orðasennum þar sem tungumálið er notað til að særa og meiða, heilla og táldraga, strjúka og svíkja, elska og hata, rifja upp, rífa niður og allt þar á milli. Hálfrímaður textinn fleytir verkinu áfram og snertir á ýmsum málefnum sem ungt fólk glímir við í dag;  undir niðri kraumar ólgandi fíknarkvika, logandi ástríður, kynferðislegt markaleysi, ofbeldi, órar og spurningin um hvað sé satt, hvað sé raunverulegt, hvað sé á endanum trúverðugt.